Greinasafn | október 2012

Jón Gnarr, Davíð og Halldór


Mikið finnst mér yndislegt að frétta það að Jón Gnarr borgarstjóri Reykjavíkur skuli lýsa yfir vilja til að gera Reykjavík að herlausri borg með því að banna alla umferð hernaðarfarartækja  í lofti, láði og legi, við Reykjavík.

Auk þess lýsir hann því yfir að við eigum að ganga úr hernaðarbandalaginu Nato,  sem við hefðum aldrei átt að ganga í.

Hann fær enn einn stóran plús í kladdann hjá mér fyrir þetta.  Og hefur hann fengið þá allnokkra hjá  mér þann tíma sem hann hefur verið borgarstjóri Reykjavíkur.

Ólíkt höfðust tveir svokallaðir ráðamenn þjóðarinnar  þeir Davíð Oddson Og Halldór Ásgrímsson að fyrir um það bil áratug síðan, vorið 2003 .

Þá ákváðu þeir tveir án alls samráðs við þing eða þjóð að setja okkur á lista bandalags hinna  viljugu þjóða um hernaðarinnrásina í Írak.

Það var skelfilegur gjörningur og svívirðilegur af herlausri þjóð.

Og margir munu sennilega aldrei gleyma því hvernig þeim varð innanbrjósts við fréttirnar af því.

Jón Gnarr vex sífellt í mínum huga af verkum sínum.

Davíð og Halldór fara sífellt minnkandi.

Haustið er yfir mér


Hef ekki kraft í mér til neins nema líða um í einhverjum  líkamlegum og sálrænum haustdofa.

Ekki bætir úr skák þegar mér verður hugsað til þess hvað vorið er órafjarri núna.  Það krumpar í mér sálina.

Bókin sem ég er að lesa liggur bara hér og hvar og allstaðar og ég sem á bara eftir fáeinar blaðsíður ólesnar hef svoleiðis gjörsamlega misst áhugann á henni að ég veit að ég mun aldrei klára þessar fáeinu blaðsíður af Gamlingjanum.   Hann er orðinn gjörsamlega óáhugaverður í mínum huga sem og allir hans fylgifiskar.

Einhver hópur bara af óspennandi karakterum,  körlum á öllum aldri sem eru að klúðra öllu sem þeir koma nálægt.   Eina áhugaverða persónan að mínu mati er fíllinn Sonja.  En það er lítið sagt frá henni annað en maður veit að hún er þarna til staðar og háð þessari grúppu hvað varðar mat og húsaskjól.

Ég vil láta skrifa sögu fílsins Sonju.

Framan af hafði ég samt gaman af þessari sögu og því sem á daga þessara kalla dreif.  En núna finnst mér einhvernveginn botninn vera dottinn úr sögunni.

Prjónaáhuginn sem ég hafði verið svo uppfull af er að fjara út án þess að ég fái nokkuð við það ráðið.

Þetta er auðvitað þunglyndislegt hjal hjá mér,  en svona líður mér þennan morgun.

Næsti pistill verður vonandi bjartari. 🙂

Myndin mín á sýningunni niðrí ráðhúsi er þar með öllum hinum myndunum og gerir það gott eða slæmt eftir atvikum.  Hún er nú á eigin vegum greyið.

Ég er farin að hugsa um næstu mynd.

Bókaþankar og rabb um myndina mína sem fer á sýningu í Ráðhúsi Reykjavíkur í næstu viku.


Krókloppin sit ég hér við tölvuna mína og blogga, þó ætti ég fremur að fara í rúmið og halla mér með bókina sem ég er að lesa núna.

Það er bókin um gamlingjann sem skreið út um gluggann á elliheimilinu rétt í þann mund að halda átti honum 100 ára afmælisveislu.

Það drífur margt á daga þessa gamlingja eftir að hann „hoppaði“ út um gluggann og maður hefur ekki við að fylgjast með hvernig honum reiðir af á flóttanum af elliheimilinu.    Og les æfisöguna hans svona á milli kaflanna.

Sú saga er ekki síður skrautleg og lygileg,  og ég skemmti mér konunglega við lesturinn.   Hann minnir mig oft á góða dátann Sveijk satt að segja.

Bókin liggur á náttborðinu mínu og ég nennekki  að gá hver höfundurinn er.  En ég gúglaði hann og nafnið er Jonas Jonasson sænskur virist mér,  þetta er fyrsta bók hans.  Og þesssi bók varð ein helsta metsölubók síðari ára eins og stendur þar

Úps nú er hálfa stilnoct svefntaflan fari að virka á mig svo ég fer að detta út og ofaná skrifborðið fína sem er a la Ikea.  Hannað af einhverjum snillingnum þeirra.  Það tók bara smárifrildi og þras að koma þessu borði saman.   Enda sáraeinfalt.

Ég lauk við myndina mína sem á að fara á sýninguna í ráðhúsi Reykjavíkur í næstu viku,sæmilega sátt.  Auðvitað stóð til að myndin yrði fullkomin!

En hún varð það bara ekki.

En nú hef ég sagt stop við hana og óska henni velfarnaðar á sýningunni í næstu viku. Þar mun hún vera til sýnis ásamt u.þ.bþ 40 öðrum myndum okkar félaga í Félagi Frístundamálara

Ég mun svo koma af og til og halda í hornið á henni.

 

Kvæði um sorg og þjáningu.


Pistill dagsins er um draum sem mig dreymdi í nótt og ég orti svo kvæði um þennan skrýtna draum sem varð enn skrýtnari við það.

Kannski á þetta ekki lengur mikið skylt við drauminn.

 

Sem kliður í hörpu

eða hljómþýð lind

var grátur þinn

í nótt.

 

Og ég hélt þér í fangi mér

leitaði skjóls

undan skuggunum gráu.

á örfoka tindi fjallsins.

 

Og sorgin átti samleið með okkur.

Gakk í björg og bú með oss….


Það er títt nefnt að slímsetum við tölvuna með tilheyrandi lestri á eiginlega öllum fjandanum, sé hægt að líkja við það að ganga í björg og búa með álfum og tapa auðvitað ráði og rænu, jafnvel lífinu sjálfu.

Ég les og læka í gríð og erg án þess að víla það fyrir mér.     Á fullt af vinum sem eru sífellt að brölta í bjarginu með mér  og tjá sig um alla skapaða hluti og  hafa mikla  skoðun á öllu milli himins og jarðar.      Kannski án mikillar yfirvegunar.      Frekar en ég.

Þetta er líka oft gaman.

Nú kemur myndin sem á að fylgja þessu bloggi og er  af “ einni álfamær, sem ekki er Kristi kær“

Þetta er partur af mynd sem ég er að verða búin að mála.

 

Ella Fitzgerald


Eitthvað gengur þetta brösuglega hjá mér að blogga. Eiginlega nenni ég þessu varla. Kannski vegna þess að ég er of sein á lyklaborðinu og þreytist því á þessu löngu áður en ég er búin að segja allt sem ég tel eiga erindi við háttvirta lesendur mína. Þessir háttvirtu lesendur eru um það bil 20 manns sem alltaf koma í heimsókn á síðuna þegar ég birti eitthvað nýtt.

Núna er ég að hlusta á “Dauða Trúðsins” eðalkrimma eftir Árna Þórarinsson, af diski sem ég er að spila í tölvunni minni um leið og ég pikka þetta inn. Það er að vísu nokkuð erfitt að halda athyglinni við lesturinn á meðan. Svo ég hlusta áreiðanlega aftur á þennan kafla.

Alltaf er ég að krassa  og margir hafa sagt við mig: “Þú ert alltaf að krassa.” Og hér birti ég “krass” sem ég er nýbúin að krassa.Fjúkk þetta tókst  að ég held.  En leturgerðin er eitthvað undarleg!!!