Greinasafn | desember 2012

Jólabaksturinn


IMG_6171IMG_6170Það eru allir að baka fyrir jólin finnst mér nema ég. Ég baka ekki neitt, varla að ég setji upp jólaglingur..nema auðvitað set ég upp allar þær jólaseríur sem til eru á heimilinu og kveiki á litlum teljósum út um allt. Enginn aðventukrans hefur verið settur á stofuborðið. Tinna hefur skreytt pínulítið jólatré fyrir ömmu sína og afa. Það gerði hún fyrir svona cirka viku siðan fyrst og síðan hefur hún endurskreytt þetta litla jólatré ( sem er auðvitað gerfijólatré ) nokkru sinnum. Þetta með baksturinn og smákökurnar er eitthvað að bögga mig núna og ég var eitthvað að hugsa um að það gæti verið gaman að baka eitthvað sem heitir. Franskar makkarónur og líta alveg svakalega gæðalega og jólalega út, einnig var eitthvað í minninu sem heitir Kókosmakkarónur og mér hafa alltaf þótt góðar og auk þess fljótlegar í framkvæmd. Bara hræra saman eggjahvítum sykri og kókosmjöli. Og kökur tilbúnar!

Í morgun var ég svo að gúgla smákökur án þess að finna hjá mér neistann til að baka þær. Ég skoðaði myndaniðurstöður og fannst margar af þessum smákökum hreinlega fráhrindandi, og varð bara bumbult af því að sjá þær myndgerðar.

Einu sinni var það siður sem margir höfðu í heiðri á íslenskum heimilum að baka svo mikið af allskyns kökum fyrir jólin, að þær dygðu hreinlega til páska. Og það tíu sortir af smákökum. Þó að ég hafi nú oft verið sveitt og streitt fyrir jólin og þá sérstaklega á meðan krakkarnir mínir voru að vaxa upp, að þá var þetta aldrei neitt í námunda við tíu sortir af smákökum. En ómældum tíma var stundum varið í að baka piparkökuhús sem var svo borðað eftir áramótin.

Ekki veit ég nú hvernig þetta endar núna! En kannski kaupi ég tilbúið deig til að baka svo það komi smákökulykt í húsið.

Franskar Makkarónur virðast vera eitthvað sem er erfiðara og tímafrekara að baka heldur en Sörurnar sjálfar svo sá bökunardraumur féll um sjálfan sig „á einu augabragði“ þegar ég las uppskriftina að þeim.


001Ekki er það einleikið hvað mér tekst alltaf að klúðra hlutunum þegar ég er að þessu bloggi.  Pósta þessu út um víðan völl,  Og  gleymi helmingnum af því sem ég vildi sagt hafa (kannski sem betur fer!)

Ég get svo svarið það að þegar ég var að hlusta á málþófið á Alþingi núna fyrir fáeinum dögum, að þá var mér svo gersamlega allri lokið yfir þvælunni og bullinu sem málþófsmenn gátu látið út úr sér að ég lýsti því yfir að ég myndi aldrei kjósa fjórflokkinn framar,  og mun standa við það.

Það hefði átt að stoppa þennan fíflagang.   Mér skilst á forseti þingsins geti takmarkað ræðutíma þingmanna, þegar stefnir í svons vitleysu.

Þetta fólk hafði fæst nokkuð til málanna að leggja,  þau tuðuðu um einhverja óskiljanlega vitleysu úfin og þvoglumælt af vökum fram á nætur, og voru greinilega ekki að vinna af heilindum fyrir almenning  í landinu.

Ég var nú ekki að vaka yfir þessu en sá samt nóg.

Og segi nú bara eins og Silvía Nótt:  „Hvað á þetta eiginlega að þýða“

Nú en ekki ætla ég að tala meira um þetta,  heldur ætti ég að reyna að tala um eitthvað skemmtilegra en þá er það sama gamla sagan.  ég nenni ekki að skrifa meira eins og ég var í miklu stuði þegar ég byrjaði þennan pistil.

Ég fór að mála hestamyndir eða eiginlega skissa hesta svona eftir minni um daginn og setti nokkrar þannig skissur inn á fb.

Hestar þykja mér svo falleg dýr að ég hef ekki vogað mér að leggja mínar óverðugu lúkur í það að myndgera þá.  En eitthvað hefur breyst, nú er ég upptekin af því að skissa hesta, en nota nú til þess „verðugan“ pappír og alvöru módel!

Tvær af þessum myndum eru nú alveg ágætar og kemur alveg til greina að ramma þær inn.  Þ.e.as. ef það kostar ekki morð fjár.  En áður en til þess kemur vil ég ná einum góðum hesti eða svo til viðbótar.

Nóg um það!  Mér var gefið flott útvarp í dag. Það gerði eiginmaðurinn og var ég nokkuð ánægð með hann þá!