Greinasafn merkja | mynd

New post added…o.s.frv.


par

Var eldsnemma á fótum og skellti í nokkrar myndir í morgun!

Kannski ofurgrobb hjá mér, en hva…það er svo gaman að grobba ég væri nú ekki sannur íslendingur annars.

En smávegis skellti ég nú af lit á myndir sem eru í vinnslu hjá mér .

Meðfylgjandi er ein sem ég er að bauka við og veit sossum ekkert hvað úr verður.

Þessi er mjög breytt í Corel Painter eins og hún birtist hér. Inní vinnustofu er hún miklu meira svona daufleg…. mestöll brún.

Þetta myndefni minnir mig á pabba minn…..Hann var hrifinn af þjóðsögum og æfintýrum, og það er einmitt sá tónn sem ég vildi slá.

Nú er ég komin heim aftur , búin að þvo terpentínuna af höndunum …og setja lambalæri í ofninn …þar skal það hægeldað að gömlum og góðum íslenskum sið til kl. 18.

Kvöldverðargestir ættu að vera búnir að skila sér í hús um sjöleytið í kvöld.

Ég hlakka til.

Haustið er yfir mér


Hef ekki kraft í mér til neins nema líða um í einhverjum  líkamlegum og sálrænum haustdofa.

Ekki bætir úr skák þegar mér verður hugsað til þess hvað vorið er órafjarri núna.  Það krumpar í mér sálina.

Bókin sem ég er að lesa liggur bara hér og hvar og allstaðar og ég sem á bara eftir fáeinar blaðsíður ólesnar hef svoleiðis gjörsamlega misst áhugann á henni að ég veit að ég mun aldrei klára þessar fáeinu blaðsíður af Gamlingjanum.   Hann er orðinn gjörsamlega óáhugaverður í mínum huga sem og allir hans fylgifiskar.

Einhver hópur bara af óspennandi karakterum,  körlum á öllum aldri sem eru að klúðra öllu sem þeir koma nálægt.   Eina áhugaverða persónan að mínu mati er fíllinn Sonja.  En það er lítið sagt frá henni annað en maður veit að hún er þarna til staðar og háð þessari grúppu hvað varðar mat og húsaskjól.

Ég vil láta skrifa sögu fílsins Sonju.

Framan af hafði ég samt gaman af þessari sögu og því sem á daga þessara kalla dreif.  En núna finnst mér einhvernveginn botninn vera dottinn úr sögunni.

Prjónaáhuginn sem ég hafði verið svo uppfull af er að fjara út án þess að ég fái nokkuð við það ráðið.

Þetta er auðvitað þunglyndislegt hjal hjá mér,  en svona líður mér þennan morgun.

Næsti pistill verður vonandi bjartari. 🙂

Myndin mín á sýningunni niðrí ráðhúsi er þar með öllum hinum myndunum og gerir það gott eða slæmt eftir atvikum.  Hún er nú á eigin vegum greyið.

Ég er farin að hugsa um næstu mynd.

Gakk í björg og bú með oss….


Það er títt nefnt að slímsetum við tölvuna með tilheyrandi lestri á eiginlega öllum fjandanum, sé hægt að líkja við það að ganga í björg og búa með álfum og tapa auðvitað ráði og rænu, jafnvel lífinu sjálfu.

Ég les og læka í gríð og erg án þess að víla það fyrir mér.     Á fullt af vinum sem eru sífellt að brölta í bjarginu með mér  og tjá sig um alla skapaða hluti og  hafa mikla  skoðun á öllu milli himins og jarðar.      Kannski án mikillar yfirvegunar.      Frekar en ég.

Þetta er líka oft gaman.

Nú kemur myndin sem á að fylgja þessu bloggi og er  af “ einni álfamær, sem ekki er Kristi kær“

Þetta er partur af mynd sem ég er að verða búin að mála.

 

Vangavelta3


Nú er kominn þriðji dagur í bloggi!!!  Og ég er nú ekki viss um að ég endist til að vera að tjá mig eitthvað á tölvuna hvern einasta dag.   En hér er ég komin og halla undir flatt.

Það er nú reyndar raunin  að ég hef verið að halla mikið undir flatt í morgun.  Ástæðan er sú að ég er að MÁLA með akrýllitum.  Sem ég geri nú ekki oft.  Svo réðst á mig geitungsfantur rétt í þessu og mér brá svo að ég hrópaði á hjálp!  Þessi suðandi óbermi eru alltaf svo leiðinleg og frek.  Núna er geitungurinn í eldhúsinu og suðar þar í kringum hunang og appelsínur.  Vonandi flögrar hann suðandi út um gluggann og beint í netið hjá risastórri kónguló sem þar bíður eftr honum í sterku neti sínu.

En nú set ég inn mynd og fer aftur að MÁLA með akrýlnum.