Greinasafn | nóvember 2012

Afreksverk í eldhúsinu


Kláraði að mála eldhúsið í dag og var búin að því um eittleytið.  Eftir það þvoði ég gluggann og pússaði rúðurnar.  Hengdi svo upp rauðar jólagardínur og sitthvað fleira!  Já ég var bara í stuði og hefði getað málað miklu fleiri veggi ef það hefði bara verið til málning.

Reyndar er ég með smá harðsperrur í öxlunum,  nema þetta séu vaxtaverkir í vöðvunum.

Eftir þessa vinnu í dag  bjó ég til tveggja daga skammt af „my version“ af Ungversku gúllasi. það var  bara gott þó ég segi sjálf frá.

Svo nú er ég „búin að öllu“ í bili.

Seint verð ég talin snjöll í því að tjá mig á prenti,  ja eða svona yfirleitt, nema helst þá myndrænt.    Núna t.d.nenni ég eiginlega ekki að skrifa mikið meira.

En ein mynd fylgir hér eins og vanalega.  Þetta er mynd úr kokkabókinni minni sem var gefin út af Iceland Review fyrir um það bil 20 árum síðan.

Bókin gerði það bara gott og var ætluð á markað fyrir túristana  með uppskriftum af venjulegum hvunndagsmat eins og t.d. plokkfisk.    Og myndskreytt á hverri opnu af mér.    Bókin  var í sölu langt fram yfir aldamót, og kom út á ensku,þýsku og dönsku.

Enska útgáfan seldist best!

Þessi myndin hér að ofan sem fylgir þessu bloggi, er einmitt sú sem ég teiknaði sem myndskreytingu fyrir plokkfisk.

Jólaleg eplalykt


Satt að segja er ég að hugsa miklu meira um að blogga heldur en ég kem svo nokkurntíma í verk að skrifa.

Núna var ég tildæmis að hugsa heilmikið um það hvað allt er eitthvað jólalegt!   Og ástæðan er eiginlega sú að ég fékk mér eitt lítið epli  og eplalyktin kveikti á þessum hugrenningum.

Mér hefur líka oft dottið í hug undanfarið að byrja aftur að „leira“ og í dag fór ég svo í Glit og ætlaði að kaupa postulínsleir  (þó að ég eigi leir niðri í kjallara) en það er einhvernveginn ekki nógu hátíðleg byrjun!

En í versluninni Glit greip ég í tómt því hún átti ekki til þann leir sem ég vildi svo ég verð að bíða fram í næstu viku eftir honum.

Þannig að jólabollastellið verður að biða til næstu jóla.

Það er spennandi að fylgjast með Íslensku konunni sem er að hefja gönguna á Suðurpólinn þessa dagana ein síns liðs.  Vilborg heitir hún og segir daglega frá hvernig henni gengur á heimasíðunni sinni http://www.lifsspor.is.

Af einhverjum ástæðum hefur mér alltaf þótt óhemju spennandi að lesa um ferðir fólks á Suðurpólinn.  Kapphlaup þeirra Amundsen og Scott á Suðurpólinn les ég allt um sem ég get, ef það rekur á fjörur mínar.

Robert Scott fórst ásamt sínum mönnum eftir að hafa náð á pólinn mánuði seinna en Amundsen sem brunaði vel undirbúinn með hundaækin sína á Suðurpólinn fyrstur manna.

Scott klaufaðist hinsvegar með smáhesta og einhverskonar vélknúna snjósleða.  Og hestarnir áttu erfitt með snjóinn og kuldann og drápust einn eftir annan.  Sleðarnir voru bara draslImage.

Þann 14 desember 1911 stóð svo Roald Amundsen og hans menn á pólnum fyrstir manna.

Scott hinsvegar virtist ekki hafa hugsað ferðatihögunina nægilega vel og því fór sem fór og hans leiðangur fórst á heimleiðinni.

Og hvað er svona merkilegt við þennan punkt á hnettinum sem gengur undir nafninu Suðurpóllinn.  Sennilega ekkert en hvað mig varðar þá hafa landkönnuðir og sögur af þeim alltaf heillað mig, og mest Suðurpólsferðasögur.

Hugsanlega var ég læknirinn í leiðangri Scotts!  Í fyrra lífi alltsvo!

Vonandi gengur Vilborgu ferðin vel.  Og ég fylgist svo með henni daglega eins og eflaust fjöldi annara.

Að endingu ætlaði ég að setja eina myndskreytingu til að punta uppá þessi skrif og fann þessa fínu teikningu af ketti.  Þá virðist kötturinn sá ætla að taka upp þann dæmigerða kattasiðað leggjast á mitt blaðið.  Það verður bara svo að vera!

Þessi færsla var birt þann nóvember 23, 2012. Skrá ummæli

Tinna teiknar


Þetta eru myndir eftir Tinnu sem er nýorðin þriggja ára og farin að teikna eftir pöntun ömmu sinnar myndir af hverju sem henni dettur í hug.  Þetta eru myndir af mömmu og pabba  hennar Tinnu þeim Bjarna og Charmaine.

Alveg eftir reglunni þegar börn byrja að teikna, þá eru fjölskyldumeðlimir og þau sjálf aðalviðfangsefnið.

Og sömuleiðis er það venjan að teikna fólk svona eins og Tinna gerir,  þ.e.  hringur sem á að vera andlitið og innan þess hrings eru augun venjulega staðsett, yfirleitt er ekkert nef en munnur og jafnvel gleraugu ef viðkomandi gengur með svoleiðis. 

Þessi haus er síðan með hár af allskonar útfærslum,  og oftar en ekki eru teiknuð eyru.

Niður úr þessu andliti eru síðan dregin tvö strik sem tákna fætur, og stundum koma svo strik eins og útúr eyrunum og það eru þá hendur.  Búkur er eitthvað sem kemur miklu seinna til sögunnar í myndheimi barna.

Ég hef alltaf verið hrifin af teikningum barna, og þessvegna er ég nú að skrifa um þessar teikningar Tinnu.

Mér finnst svo gaman að hún skuli vera komin á þetta þroskastig. 🙂

Hún teiknaði líka mynd af mér og ég fékk vandlega teiknuð eyru á hausinn!

Image

Image

Þessi færsla var birt þann nóvember 14, 2012. Skrá ummæli

Nýtt líf í skápum og geymslum


Nú er komið að því.

Ég hef tekið alvarlega jólahreingerningarbakteríu með tilheyrandi flogaköstum sem lýsa sér í því að rífa allskonar dót út úr sínum rykugu og huggulegu skúmaskotum, með það  í huga að henda þessu „drasli“ og rýma þar með til með fyrir nýju drasli.

Mér hefur tekist að henda einhverju smávegis ein  sem ég skil ekki af hverju ég hef verið að kaupa og vanalega….furðað mig á af hverju ég keypti  þetta en notaði það aldrei en ætla samt að geyma það áfram ef ske kynni!

Og þurrkað rykið af mörgu sem mér hefur hlýnað um hjartaræturnar við að sjá aftur 🙂   Og pakkað því svo aftur inn aftur til að geyma áfram í einhverju skápaskúmaskotinu.

Mikið hef ég fundið af allskonar prjónagarni

Og ég skil ekki af hverju ég hef verið að kaupa þessi býsn af prjónagarni.

Einhversstaðar djúpt í hugskotinu blundar þessi þörf fyrir að prjóna flottar peysur eða hlý teppi !

Ja ja svona er þetta og nú bíða 2 fullir Bónuspokar af garni eftir að verða að einhverju hlýju fyrir veturinn.  Hehehe.:)