Nýtt blogg um daginn í dag


Nei halló, haldiði ekki að ég hafi rekist inn á þetta  blogg mitt alveg óvart.
Svo nú verð ég að skrifa eitthvað.
Í dag er þessi óveðursdagur sem ég valdi til þess að bjóða systkinum mínum í mat, og óveðrið kom í veg fyrir það.
Þannig að þau sátu bara heima hjá sér,  og ég heima hjá mér eðlilega.
Löggan búin að loka veginum á Kjalarnesi og austur fyrir fjall, já bara lokaðir vegir útum allt.
En núna er veðrið að ganga niður hérna á uðvesturhorninu og Kjalarnesið er opnað  á ný.

Í morgun var ég að passa Lísu kisu á meðan sambýlisfólkið hennar skrapp í vinnuna.
Lísa kisa gekkst undir aðgerð í fyrradag og voru fjarlægð 2 krabbameinsæxli af bumbunni á henni.
Hún var ekki mjög hress greyið, lá allan tímann og hreyfði sig ekkert úr rúminu snerti ekki einusinni harðfisk sem ég bauð henni.
Ég lá svo í leisíboj stól inni í stofu og horfði á mynd  í sjónvarpinu, og gæddi mér á rjómabollum.  Tveim stórum með miklum rjóma.
Og myndin fjallaði auðvitað um matreiðslu einhverra listakokka.  Og á meðan sótti veðrið í sig veðrið!!
Athyglisverðustu réttirnir hjá kokkunum og þeir sem ég myndi velja af fína matseðlinum þeirra voru:    Í forrétt hefði ég kosið Parmesan ostaturn vegna þess hvað hann var verulega flottur  að sjá.      Í aðalrétt valdi ég mér smartan pastarétt  og eftirmaturinn var Sítrónupæ með crusty skorpu.    Svo hefði ég kosið að snæða þetta á litlu veitingahúsi í itlum bæ á Ítalíu  við strönd Gardavatnsins,  og hafa hæfilega golu, smá sólskin og svona 20°C  ekki svo mikið meira.
Svona voru draumórarnir hjá mér í villta veðrinu….En ekki veit ég hvað kisa lét sig dreyma um…En hún lá og svaf svo henni leið vel eins og mér.

Annars er best að fara að demba sér í dúninn.

 

Er ég virkilega að byrja á þessu bloggi mínu aftur? :)


Já virkilega, þetta er að eiga sér stað.

Í dag er ég glöð í sinni vegna þess að ég er komin með vinnuaðstöðu í Samsteypunni sem er í húsakynnumSementsverksmiðjunnar hér á Akranesi.

Við vorum í flutningum allan daginn í gær og litirnir mínir,  áhöldin , nýstrekktu strigarnir og trönurnar eru komin í mitt horn.

Ég hef hugsað mér að fara í dag og koma þessu betur fyrir og snurfusa aðeins.

Svo er markaður hér í bæ sem hefst um hádegi og þangað þykist ég eiga erindi líka.

En ég vildi bara láta ykkur vita um vinnuaðstöðuna mína og svoleiðis.

Velkomin í heimsókn. Lesa meira

Spáð og spekulerað í jólin m.a.


Já, það fer að styttast í þau og mikið er ég fegin,  Að jólin komi og fari með öllu sínu brambolti og veseni, góðum mat og kertaljósum,einni og einni smágjöf og allir í jólaskapi.  

Nú er nýbúið að birta úrslitin í kosningunni um fegursta orðið sem til er á íslenskri tungu. og það var orðið ljósmóðir sem fékk flest atkvæði.Ekki treysti ég mér til að ákveða hvað mér þætti fegurst orða, ég er of mikill vingull til þess.  Mér datt alltaf í hug orðið bali þegar ég velti fyrir mér hvaða orð mér þætti fegurst.  Og það gengur ekki að stinga uppá svoleiðis orði sem þýðir annaðhvort þvottabali eða grasbali sem fegursta orðinu.

Og hvaða skýringu hefði verið hægt að láta fylgja með svona orði.  Kannski þessa:  Það er hægt að baða sig í bala eða á bala. 

Það gæti líka verið heppilegt sem mantra…baaalih…baaalih…

Nú er ég farin að bulla einhverja vitleysu og ætti að sleppa frekari hugleiðingum um orðið bali.

Baggalútur er lika skemmtilegt orð og undarlegt ,en kannski ekki svo fallegt frekar en balinn.

Það er einn kall sem baðar sig í bala

Baggalútur Guðmundsson á Hala

Sem jafnan fyrir jól

jarmar úti á hól.

Hann dreymir um að debútera á Scala.ImageS

Þessi færsla var birt þann nóvember 12, 2013. Skrá ummæli

Hvað er í matinn í dag?


Það er alltaf einkennilegt mataræði hérna heima hjá mér, og það fer eftir kenjum kokksins, sem er yfirleitt og oftast ég undirrituð.
Núna hafa staðið yfir brauðlausir dagar um skeið. (Eða brauðlausir að mestu) Hrökkbrauð er sæmilegt og kannski þrumari af og til.
Þetta er af þeirri ástæðu að hvítt hveiti er ku ekki vera gott fyrir þá sem vilja endurheimta línurnar. Eða halda að þeir geti það. Og missa kúlumagann til að fá kannski kúlurassinn í staðinn! Það er líka eftirsóknarvert.

En það er fleira sem kemur til álita í þessu dæmi öllu þ.e. að reyna að hugsa um hvað maður er að láta ofan í sig. Sannast sagna er allt sem heitir unnar matvörur komið í algjöra ónáð hjá þessum kokki, og þótt ég hafi oft velt því fyrir mér hvaða gæðum er hægt að búast við í mat sem búið er að hylja með þykku lagi af raspi eða drekkja í marineringu svo ekki sé nú minnst á spurninguna um hvað er eiginlega í þessu ógeðfellda kjötfarsi,og pulsum, þá tók nú steininn úr þegar iðnaðarsaltsmálið fræga kom upp úr kafinu fyrir ekki svo löngu síðan. Samt kemur fyrir að ég fái mér pulsu! En ekki oft og allsekki kjötbollur úr bleika drullukennda kjötfarsinu.

Er þetta þá ekki sultarlíf sem við lifum miðað við þessar útilokanir á „góðum“ og ódýrum íslenskum mat?

Nei er svarið við því við lifum ágætis lífi á meiru af grænmeti og ávöxtum og minna af kjöti og fiski, Brauð í miklu minna mæli en áður. Enda er brauð svo dýrt að það verður að vera gott til að mann langi að hesthúsa það í miklu magni. Og það er afar sjaldan gott brauð að hafa í bakaríunum og lágvöruverðsbúðunum. Það er nú mín skoðun! Hrökkbrauð er ekki heldur mjög bragðgott yfirleitt, einhvert sérkennilegt gamalt bragð af því oft. Rúgbrauð er skást og flatkökur.

En ekki er nú allt neikvætt í matarmálunum! T.d. er núna komið þetta bragðljúfa íslenska hvítkál sem er himnesk fæðða, nýuppteknar kartöflur og gulrætur.

Nú er þetta farið að hljóma eins og auglýsing fyrir íslenska garðyrkjubændur, og þeir eru líka að standa sig vel

Fiskur ætti líka að vera miklu ódýrari heldur hann er. Útvegsmannamafían er að fá alltof mikið í vasann og virðist vera með algjöra einokun á verðlagningu og sölu á fiski, sama er með bensínmafíuna.
3040401477_3aa6fdcff5_ogrunnsjávarfiskar

Fáein orð eða eitthvað. :)


IMG_5888Alltíeinu mundi ég eftir wordpress síðunni minni og fór að kíkja á hana og ákvað að skrifa eitthvað til að láta hana ekki falla alveg í gleymsku og dá.
Ég er að reyna að vera í megrun þessa dagana en léttist samt eiginlega ekki neitt. Samt hef ég reynt að borða ekki mikið brauð, sem er venjulega að virka vel. En ekki núna. Fitufrumurnar eru kannski orðnar ónæmar fyrir tilraunum til að reka þær á brott.

Í gær bjó ég til tveggja daga kjötsúpu úr öllu þessu nýja grænmeti sem er að koma á markaðinn núna, plús gömlu lambakjöti síðan í fyrra. Hún heppnaðist bara vel og bragðaðist líka vel! Það hefði mátt vera meira grænmeti í henni samt. Í kvöld ætla ég að hita það sem eftir er upp og bæta slatta af grænmeti útí.

Núna í þessum skrifuðu orðum kom Sæmi hér í dyrnar og sagði drjúgur með sig. „Ég er alltaf að léttast“ Jú einhver fáein grömm höfðu farið síðan í gær. En ég stend í stað. Kannski er ég bara að bæta á mig vöðvamassa í ræktinni og þar er komin skýringin. Votever og húkers anívei.

Hægeldaða lambalærið


Í síðustu færslu minntist ég á hægeldað lambalæri og lét eins og ég væri alltaf að elda svoleiðis mat.

Það er nú ekki þannig.

En ég var búin að sjá þessari matreiðsluaðferð lýst á blogginu hér og þar, og árangurinn sagður frábær. Svo ég var orðin forvitin og vildi prófa. Og mæli algjörlega með þessari matreiðsluaðferð.

Í stuttu máli er aðferðin sem ég notaði þessi: Kona (eða maður) tekur ófrosið lambalæri á fimmtudegi og snyrtir að vild makar á það olíu sem í er saxaður hvítlaukur (ekki nein ósköp), hvítur pipar,sjávarsalt frá Reykjanesi, góður slatti af þurrkuðu Timian og smá soya sósa.

Í þetta sinn gerði ég svona krydddblöndu en næst geri ég vafalaust eitthvað svolítið öðruvísi. Hvað sem því líður þá vafði ég nú álpappír utanum lærið og geymdi það í ísskápnum til laugardagsins.

Þá var það tekið og sett í ofnskúffuna með álpappírnum utanum. Vatni hellt í skúffuna og ofninn stilltur á 100c og kl 13¨¨ var lærið sett í ofninn og látið vera til kl. 18¨¨en þá er mælt með því að kveikja á grillinu smástund. Hinsvegar lét ég nægja að hækka hitann í svona 150 taka álpappírinn utanaf til að fá góða steikarskorpu í svona 15-20 mín.

Þetta var verlega vel heppnað og var það samdóma álit matargesta.

Næst ætla ég að ptófa minni hita ,lengri tíma og grill í lokin!

Kannski bæta bláberjalyngi og birkilaufum við en sleppa hvítlauk og tinian.

IMG_5903

New post added…o.s.frv.


par

Var eldsnemma á fótum og skellti í nokkrar myndir í morgun!

Kannski ofurgrobb hjá mér, en hva…það er svo gaman að grobba ég væri nú ekki sannur íslendingur annars.

En smávegis skellti ég nú af lit á myndir sem eru í vinnslu hjá mér .

Meðfylgjandi er ein sem ég er að bauka við og veit sossum ekkert hvað úr verður.

Þessi er mjög breytt í Corel Painter eins og hún birtist hér. Inní vinnustofu er hún miklu meira svona daufleg…. mestöll brún.

Þetta myndefni minnir mig á pabba minn…..Hann var hrifinn af þjóðsögum og æfintýrum, og það er einmitt sá tónn sem ég vildi slá.

Nú er ég komin heim aftur , búin að þvo terpentínuna af höndunum …og setja lambalæri í ofninn …þar skal það hægeldað að gömlum og góðum íslenskum sið til kl. 18.

Kvöldverðargestir ættu að vera búnir að skila sér í hús um sjöleytið í kvöld.

Ég hlakka til.

Í fréttum af vinnustofunni er þetta helst


IMG_6364

Takmarkið hjá mér er að mála fullt af nýjum myndum og birti ég hér part ( ca. 1/5 ) af einni pínulítilli mynd sem ég hef lokið við!

Það eru reyndar fleiri og stærri myndir fullgerðar hjá mér. Og stefnan er svo að bjóða fólki í heimsókn til að skoða.

Það er einhvern veginn þannig að ég er búin að mála svo margar miniature myndir í vatnslit að ég er treg til að vera að mála á mjög stóra fleka.

En þetta eru nú ekki allt smámyndir samt.

Skæri fjólublái liturinn sem ég keypti mér um það leyti sem ég hófst handa við að mála í vinnustofunni minni nýju er ennþá í miklu uppáhaldi hjá mér og ég blanda honum saman við aðra liti æði oft. Þetta er alveg yndislegur litur og fullkominn ánægja sem fylgir því að kreista hann úr túpunni.

En ég hef bætt fleiri nýjum litum inní litaflóruna hjá mér og er sérstaklega hrifin af einum þeirra,

Bæði fjólubláa litinn og 2 af þessum nýju má sjá í myndinni sem fylgir þessu bloggi.

Eftir miklar vangaveltur um það hvað ég eigi að vera að skrifa um hér á blogginu, þá ég er komin að þeirri niðurstöðu að skrifa voðalega sjaldan og hafa þetta svona myndlistarblogg.

Ég er hvort sem er svo sjálfhverf í eðli mínu.

Alltaf að mála með bláu og brúnu!


Alltaf að mála með bláu og brúnu

Ég er alltaf að mála með bláu og brúnu og set svona smá dass af rauðu hér og hvar.

Þetta sést á þessari mynd af hauskúpum sem ég nota til að þurrka af penslunum áður en ég þríf þá með terpentínu að loknu verki dagsins.

Það eru þónokkur verk í vinnslu hjá mér á vinnustofunni í Auðbrekku 6

Samt er ég ekkert með vatnslitina mína á lofti aðeins olíulitina.

Ég keypti mér fokdýran lit sem ég hef ekki notað áður og er ennþá alveg heilluð af honum.

Sá litur er hvorki blár eða brúnn heldur einhvrnveginn fjólublár.

Og blandast svo vel inní uppáhaldslitina mína.