Greinasafn merkja | ljóma

Vor hinsti dagur


Landslag á einhverri jörð

Hvað nú ef við fengjum þær fréttir í gegnum hinn „óskeikula“ fjölmiðil allra landsmanna sem kallaður er RUV, ( Og samsvarandi óskeikula og sannleiksdýrkandi fjölmiðla veraldar ) að rétt fyrir miðnætti muni jörðin sem við stöndum á splundrast í þúsund ,milljón, skriljón tætlur af völdum stórkostlegs geimsteins sem stefnir á okkur núna og muni ekki hvika frá þeirri braut?

Hvað myndum við gera þennan hinsta dag okkar allra sem á jörðinni lifum?

Myndum við drífa okkur í að leggja niður vopn svo allir jarðarbúar mættu eiga friðsælt ævikvöld við kertaljós og andlega iðkun í faðmi fjölskyldunnar að undirbúa okkur fyrir umskiftin um miðnætti, Þegar við munum upplifa eilíft myrkur, eða sjá aðra veröld ljóma.

Mundum við halda áfram gamla þrasinu um hvað tilveran sé erfið og allt svo andstætt okkur, og kannski flýta kosningunum til að missa ekki af því að kjósa okkar guði til valda yfir okkur!!

Myndum við muna eftir því hvað rigningin er góð og fara út að upplifa.

Myndum við undirbúa síðustu kvöldmáltíðina með þeim sem við elskum allra mest og þakka þeim fyrir lífið sem við höfum átt með þeim. Gleðina og sorgirnar sem við höfum deilt.

Kannski myndum við leggjast undir sæng og breiða uppfyrir haus og bíða eftir endalokunum vanmáttug af skelfingu.

Hamast við að senda öllum fésbókar vinum djúphugsaðar hinstu kveðjur!

Detta í eyðslufyllirí eða venjulegt fyllirí.

Svo sannarlega veit ég hvernig ég myndi bregðast við svona fréttum. Að alltíeinu ætti ég bara fáeina klukkutíma ólifaða.

Í trausti lengra lífs en til miðnættis fæ ég mér kaffi og kringlu.