Greinasafn merkja | fiskur

Meiri matarmenning.


Hefurðu borðað súrsuð kýrjúgur?  Eða hræring með súru slátri?  Ætli þetta sé algengur matur hjá fólki í dag?    Þetta var oft og jafnvel daglega á borðum sumstaðar a.m.k. þar sem ég var í sveit á æskuárum.

Ef einhvern langar að prófa hræringinn þá er hér uppskrift að honum:

Maður tekur kaldan afganginn af hafragraut síðan í gær,(eða eldar nýjan) og hrærir saman við skyr í hlutföllunum meiri hafragrautur, minna skyr.  Þetta þótti hollur matur áður fyrr…Sennilega hefur þetta verið allra meina bót  samkvæmt lögmálinu um að  allt sem er hollt er vont og allt sem er óhollt er gott

Sérlega þótti hræringurinn góður ef haft var með honum gallsúrt slátur.   Það var toppurinn.

Slátrið var dregið upp úr sýrutunnu þar sem það flaut innan um lundabagga, soðin kýrjúgur og hrútspunga.

Þetta þótti sumum kræsingar, og þykir enn.   Allavega hrútspungarnir.

Súrsuð kýrjúgur eru þannig tilbúin að þú tekur kýrjúgur og skerð það í hæfilega bita.  Lætur það síðan liggja í köldu vatni einhverja klukkutíma til að skola burt mjólkinni sem í því kann að vera.  Svo er þetta sett í pott vatni hellt yfir,saltað og soðið vel og lengi.  Látið kólna og sett í súr þar sem það er látið sýrast langa hríð innan um annað súrmeti.Image

Má ég þá heldur biðja um góðan fisk.