Sarpur

Vor hinsti dagur


Landslag á einhverri jörð

Hvað nú ef við fengjum þær fréttir í gegnum hinn „óskeikula“ fjölmiðil allra landsmanna sem kallaður er RUV, ( Og samsvarandi óskeikula og sannleiksdýrkandi fjölmiðla veraldar ) að rétt fyrir miðnætti muni jörðin sem við stöndum á splundrast í þúsund ,milljón, skriljón tætlur af völdum stórkostlegs geimsteins sem stefnir á okkur núna og muni ekki hvika frá þeirri braut?

Hvað myndum við gera þennan hinsta dag okkar allra sem á jörðinni lifum?

Myndum við drífa okkur í að leggja niður vopn svo allir jarðarbúar mættu eiga friðsælt ævikvöld við kertaljós og andlega iðkun í faðmi fjölskyldunnar að undirbúa okkur fyrir umskiftin um miðnætti, Þegar við munum upplifa eilíft myrkur, eða sjá aðra veröld ljóma.

Mundum við halda áfram gamla þrasinu um hvað tilveran sé erfið og allt svo andstætt okkur, og kannski flýta kosningunum til að missa ekki af því að kjósa okkar guði til valda yfir okkur!!

Myndum við muna eftir því hvað rigningin er góð og fara út að upplifa.

Myndum við undirbúa síðustu kvöldmáltíðina með þeim sem við elskum allra mest og þakka þeim fyrir lífið sem við höfum átt með þeim. Gleðina og sorgirnar sem við höfum deilt.

Kannski myndum við leggjast undir sæng og breiða uppfyrir haus og bíða eftir endalokunum vanmáttug af skelfingu.

Hamast við að senda öllum fésbókar vinum djúphugsaðar hinstu kveðjur!

Detta í eyðslufyllirí eða venjulegt fyllirí.

Svo sannarlega veit ég hvernig ég myndi bregðast við svona fréttum. Að alltíeinu ætti ég bara fáeina klukkutíma ólifaða.

Í trausti lengra lífs en til miðnættis fæ ég mér kaffi og kringlu.

Regn


???????????????????????????????

Regnið bylur á glugganum og himininn er kólgugrár og þunglyndislegur, ég er samt furðulega létt í sinni og veit einmitt að öll él (rigningu) birtir upp um síðir og bla..bla..bla.

Tinna ömmustelpa er mætt í heimsókn og þar með er tilveran undireins orðin litríkari og líka hávaðasamari. Hún er að horfa á Tomma og Jenna í sjónvarpinu, þeir eru sko hávaðasamir.

Tinna og afi eru inni í stofu og eru farin að púsla og gæða sér á harðfisk þau horfa svo á sjóvarpið með öðru auganu.

Þetta blogg er matarblogg öðrum þræði vegna þess að því fylgir vatnslitamynd af suðrænum heilsubætandi ávöxtum á diski.

Þessa mynd málaði ég á afar þykkan og grófan vatnslitapappír sem ég veit ekkert um hvernig komst í mína eigu, ég hef ekki málað fleiri myndir á þennan pappír, og virðist sem ég hafi aðeins eignast þessa einu örk.

Pointið í þessari mynd er að sjálfsögðu það að minna á hollu ávextina sem ekkert þarf að elda bara bíta í og borða 🙂

En nú er mr. beam að byrja og ég ætla að fara að horfa.

Málverk og matur


feb4

1 Vote

Nú er komið að nýjum bloggtíma.

Og verður þá bloggað um málverk sem ég er að vinna í. Og lífið á vinnustofu meistaranna.

Með þessu bloggi birtist ein mynd sem ég er að vinna í Þetta er mynd sem hefur legið hjá mér lengi ófullgerð, en núna hef ég málað þó nokkuð í henni og á eftir að mála eitthvað meira, en hvað ég geri er ekki alveg ákveðið ennþá….ég á eftir að stara smávegis.

Fleiri myndir er ég með í takinu. Allt myndir málaðar með olíulitum. Vatnslitirnir mínir hafa ekki fengið far með mér þegar ég fer á vinnustofuna og ég sakna þeirra svolítið.

Glíman við vatnslitina er mitt eftirlætis viðfangsefni ennþá. En þeir eru semsagt í fríi frá mér og ég frá þeim.

Þegar ég er að mála svona þá er ég ekkert að hugsa um matargerð og nenni ekki að vera að matreiða neitt skemmtilegt. Í kvöld var Hvítbaunabuff frá Grími kokki hér á borðum og smakkaðist bara vel. Kannski verður saltkjöt og baunir á morgun! Sem ég elda ekki.

Á morgun þarf ég líka að skila inn myndinni sem verður á sýningunni í sjóminjasafninu Víkinni. Þar var mér úthlutað plássi fyrir 80x80cm. stóra mynd en nýti ekki allt það pláss.lítil systkini

Ekki orð um Icesafe


Svei mér þá ég er að verða bloggóð og nú er ég byrjuð að blogga eina ferðina enn.

Kannski ég bloggi mataruppskrift í þetta sinn!!

Vegna þess að ég fjárfesti í rosafínni pönnu í Ikea um daginn og hún er eitthvað svo matreiðsluvæn og sérstaklega gaman að setja hana bara á eldavélina og láta svo allskonar á þessa einu pönnu…og vúps, alltíeinu er kvöldmaturinn tilbúinn eins og hendi væri veifað.

Og í kvöld setti ég eftirfarandi á pönnuna, af því að það var til í ísskápnum: Fyrst af öllu ólífuolía annað smávegis af smjöri, því næst 1 gulrót í smagfulde bidder, slatti af forsoðnum kartöflum og einnig slatti af sætri kartöflu,kryddaði þetta með túrmerik, hvítum pipar, chayenne pipar, og sjavarsalti ( í hófi )Lét þetta nú mallast og brúnast smástund.

Nú setti ég Blómkáls og Brokkálsstilkana og saxaði yfir eitt hvítlauksrif og áfram var mallað. Þegar hér var komið sögu náði ég mér í beikon af vistvænum grísum sem ræktaðir eru á Bjarteyjarsandi í Hvalfjarðarstrandahrepp og þetta beikon er svo undur ljúffengt. 4 sneiðar sem ég hafði skorið í litla bita fuku út á pönnuna ásamt því sem eftir var af blómkálinu og Brokkálinu.

Nú var þetta orðið svona al dente tæplega og brokkálið ennþá vænt og grænt. Svo ekki var eftir neinu að bíða að skella þessu í ofninn rétt á meðan ég lagði á borð og hellti vatni í glös. Svo spældi ég egg til að hafa með þessu. Og við kláruðum allan matinn okkar með bestu lyst. Þetta er nú svona hvunndagsmatur og mest grænmeti ef frá er skilið beikonið og eggið, en smakkaðist vel og var myndrænt þó svo að ég nennti ekki að taka mynd af þessu, enda hafði ég ekkert hugsð mér að blogga um þennan kvöldmat.

Um helgina var okkur boðið í mat og þar var alveg æðislega góður forréttur. Humar smjörsteiktur með hvítlauksbrauði og unaðslegri sósu sem kokkurinn komponeraði á staðnum. Þetta var svo vel heppnuð matreiðsla að ég stundi hvað eftir annað af einskærri matarnautn og sælu á meðan ég var að borða. Ég vona að Hafdís dóttir mín muni eftir hvað hún notaði í sósuna, svo þetta megi endurtaka.

Nú er ég 004við fjallavötninfagurbláfarin að mæta betur á vinnustofuna mína og það er að renna upp fyrir mér að það væri snjallt að taka með sér eitthvað matarkyns að narta í milli tilþrifanna við trönurnar´. Einnig 2-3 masonit plötur ef eg ætla að mála með vatnslitum.

Þessi færsla var birt þann janúar 29, 2013. 2 Ummæli

Snjórinn hvíti og bjarti


Hann er kominn og lýsir upp veröldina, snjórinn vinur Þorrans og Góunnar. Sem við eigum eftir að þreyja áður en yfir lýkur þessum vetri.

Við systkinin ásamt mökum héldum okkar Þorrablót í gær.

Þar kom hver með sinn uppáhaldsþorramat og fengum svo rófu og kartöflustöppu ásamt heimabökuðu rúgbrauði og brennivínsstaupi ( sem ég kom mér hjá að drekka!) hjá gestgjöfunum Hafdísi og Guðmundi.

Þetta fór hið besta fram hjá okkur og voru öll mál málanna rædd af miklu kappi og mörg þeirra krufin til mergjar á meðan við röðuðum í okkur Þorramatnum.

Uppáhalds þorramaturinn minn er góður harðfiskur með smjöri.

Vinnustofan mín ( og okkar Helgu ) er komin í nokkra notkun og aðeins farin að tilkeyrast. Það fylgja nokkrar myndir með þessu bloggi tileinkaðar lífinu í henni.

Ég verð með á sýningu Félags frístundamálara í Víkinni sjóminjasafni í núna í febrúar og er búin að láta ramma inn vatnslitamynd til að setja á sýninguna.

Við vorum sæmilega ánægð með þá mynd innrammarinn minn og ég. 🙂

Svo er bara að sjá hvernig hún stendur sig á sýningunni.

IMG_6199IMG_6200

Er völlur grær og vetur flýr….


Er völlur grær og vetur flýr.... Þá er ég vöknuð aftur til lífsins, eftir langvarandi slen og mæðu, sem eitthvað tengist ofáti á blóðþrýstingslækkandi lyfjum sem virkuðu svo rækilega að ég var var aldrei í stuði til að lifa, vildi bara sitja með hendur í skauti, eða sofa.

Nú er vika síðan ég hætti að innbyrða mestanpart af þessum lyfjum og það er eina og við manninn mælt að nú er lífið svo miklu bjartara og betra.

Á þessu nýbyrjaða ári ákvað ég að taka á leigu vinnustofu með annari konu og hugsaði gott til skapandi stunda í minni eigin vinnustofu!

Skemmst er frá því að segja að vegna þessa slappleika útaf lyfjaofáti hef ég nánast ekki verið þar nema í mýflugumynd.

En nú verður hæg breyting í rétta átt og meiningin er að fylla þarna allt af þessum flottu málverkum og myndum eftir mig.

Í gær fjárfesti ég í einni rándýrri túbu af olíulit „Old Holland Bright Violet“ og fyrst um sinn verður allt kannski dáldið mikið bright violet svona meðan túban endist.

Einnig keypti ég óguðlega dýran striga til að mála á, og þarf að strekkja þann striga á blindramma í dag. 🙂

Þessi færsla var birt þann janúar 22, 2013. 4 Ummæli

Jólabaksturinn


IMG_6171IMG_6170Það eru allir að baka fyrir jólin finnst mér nema ég. Ég baka ekki neitt, varla að ég setji upp jólaglingur..nema auðvitað set ég upp allar þær jólaseríur sem til eru á heimilinu og kveiki á litlum teljósum út um allt. Enginn aðventukrans hefur verið settur á stofuborðið. Tinna hefur skreytt pínulítið jólatré fyrir ömmu sína og afa. Það gerði hún fyrir svona cirka viku siðan fyrst og síðan hefur hún endurskreytt þetta litla jólatré ( sem er auðvitað gerfijólatré ) nokkru sinnum. Þetta með baksturinn og smákökurnar er eitthvað að bögga mig núna og ég var eitthvað að hugsa um að það gæti verið gaman að baka eitthvað sem heitir. Franskar makkarónur og líta alveg svakalega gæðalega og jólalega út, einnig var eitthvað í minninu sem heitir Kókosmakkarónur og mér hafa alltaf þótt góðar og auk þess fljótlegar í framkvæmd. Bara hræra saman eggjahvítum sykri og kókosmjöli. Og kökur tilbúnar!

Í morgun var ég svo að gúgla smákökur án þess að finna hjá mér neistann til að baka þær. Ég skoðaði myndaniðurstöður og fannst margar af þessum smákökum hreinlega fráhrindandi, og varð bara bumbult af því að sjá þær myndgerðar.

Einu sinni var það siður sem margir höfðu í heiðri á íslenskum heimilum að baka svo mikið af allskyns kökum fyrir jólin, að þær dygðu hreinlega til páska. Og það tíu sortir af smákökum. Þó að ég hafi nú oft verið sveitt og streitt fyrir jólin og þá sérstaklega á meðan krakkarnir mínir voru að vaxa upp, að þá var þetta aldrei neitt í námunda við tíu sortir af smákökum. En ómældum tíma var stundum varið í að baka piparkökuhús sem var svo borðað eftir áramótin.

Ekki veit ég nú hvernig þetta endar núna! En kannski kaupi ég tilbúið deig til að baka svo það komi smákökulykt í húsið.

Franskar Makkarónur virðast vera eitthvað sem er erfiðara og tímafrekara að baka heldur en Sörurnar sjálfar svo sá bökunardraumur féll um sjálfan sig „á einu augabragði“ þegar ég las uppskriftina að þeim.


001Ekki er það einleikið hvað mér tekst alltaf að klúðra hlutunum þegar ég er að þessu bloggi.  Pósta þessu út um víðan völl,  Og  gleymi helmingnum af því sem ég vildi sagt hafa (kannski sem betur fer!)

Ég get svo svarið það að þegar ég var að hlusta á málþófið á Alþingi núna fyrir fáeinum dögum, að þá var mér svo gersamlega allri lokið yfir þvælunni og bullinu sem málþófsmenn gátu látið út úr sér að ég lýsti því yfir að ég myndi aldrei kjósa fjórflokkinn framar,  og mun standa við það.

Það hefði átt að stoppa þennan fíflagang.   Mér skilst á forseti þingsins geti takmarkað ræðutíma þingmanna, þegar stefnir í svons vitleysu.

Þetta fólk hafði fæst nokkuð til málanna að leggja,  þau tuðuðu um einhverja óskiljanlega vitleysu úfin og þvoglumælt af vökum fram á nætur, og voru greinilega ekki að vinna af heilindum fyrir almenning  í landinu.

Ég var nú ekki að vaka yfir þessu en sá samt nóg.

Og segi nú bara eins og Silvía Nótt:  „Hvað á þetta eiginlega að þýða“

Nú en ekki ætla ég að tala meira um þetta,  heldur ætti ég að reyna að tala um eitthvað skemmtilegra en þá er það sama gamla sagan.  ég nenni ekki að skrifa meira eins og ég var í miklu stuði þegar ég byrjaði þennan pistil.

Ég fór að mála hestamyndir eða eiginlega skissa hesta svona eftir minni um daginn og setti nokkrar þannig skissur inn á fb.

Hestar þykja mér svo falleg dýr að ég hef ekki vogað mér að leggja mínar óverðugu lúkur í það að myndgera þá.  En eitthvað hefur breyst, nú er ég upptekin af því að skissa hesta, en nota nú til þess „verðugan“ pappír og alvöru módel!

Tvær af þessum myndum eru nú alveg ágætar og kemur alveg til greina að ramma þær inn.  Þ.e.as. ef það kostar ekki morð fjár.  En áður en til þess kemur vil ég ná einum góðum hesti eða svo til viðbótar.

Nóg um það!  Mér var gefið flott útvarp í dag. Það gerði eiginmaðurinn og var ég nokkuð ánægð með hann þá!